Klopp kann ekki að tapa

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hatar að tapa.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hatar að tapa. AFP

Mark Clattenburg, einn besti knattspyrnudómarinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar, fór yfir samskipti sín við Jürgen Klopp, stjóra Liverpool, í nýrri ævisögu sinni Whistle Blower.

Clattenburg, sem er 46 ára gamall, hætti að dæma í ensku úrvalsdeildinni árið 2017 eftir að hafa dæmt í deildinni í þrettán ár.

Hann var ráðinn yfirmaður dómaramála í Sádi-Arabíu en starfar í dag sem dómari í Kína.

„Jürgen Klopp. Frábær knattspyrnustjóri. Mjög tapsár,“ skrifaði Clattenburg meðal annars í ævisögu sína um þýska stjórann.

„Ég komst fyrst í kynni við hann árið 2014 þegar hann stýrði Borussia Dortmund. Dortmund var þá að spila gegn Real Madrid í Meistaradeildinni og tapaði 0:3 í fyrri leik liðanna í fjórðungsúrslitum Meistaradeildarinnar.

Marcelo, leikmaður Real Madrid, kom til mín í dómaraherbergið ásamt eiginkonu sinni og bað um mynd af sér með mér eftir leikinn. Klopp labbaði fram hjá í sömu andrá og spurði mig kaldhæðnislega hvort þetta hefði verið ástæðan fyrir því að hans lið tapaði.

Það fór alltaf í taugarnir á mér þegar stjórar gátu ekki tekið tapi. Klopp tók því aldrei vel þegar hans lið var að tapa. Hann var alltaf sáttur þegar hann var að vinna og þá var hann léttur og kátur,“ bætti Clattenburg meðal annars við.

mbl.is