Sex vikna hlé í ensku úrvalsdeildinni í nóvember og desember

Mohamed Salah og Bruno Fernandes gætu leikið á HM með …
Mohamed Salah og Bruno Fernandes gætu leikið á HM með Egyptalandi og Portúgal. AFP

Stjórn ensku úrvalsdeildarinnar hefur samþykkt að gera hlé á keppni frá 12. nóvember til 26. desember 2022 vegna heimsmeistaramóts karla sem fram fer í Katar síðustu vikurnar fyrir jól.

Sky Sports kveðst hafa heimildir fyrir þessu en úrslitaleikur HM 2022 á að fara fram 18. desember. Leikmenn enskra liða sem mögulega taka þátt í honum gætu þá þurft að vera mættir í næsta deildaleik heima á Englandi átta dögum síðar, á öðrum degi jóla.

Þetta var til umræðu á fundi framkvæmdastjóra félaganna tuttugu sem leika í úrvalsdeildinni en hann var haldinn í London í dag. Eftir um það bil fjögurra klukkutíma fund var þetta hlé á meðal þess sem þar var samþykkt.

Reiknað er með að í staðinn byrji enska úrvalsdeildin viku fyrr en vanalega á sumrinu 2022, eða 6. ágúst, og verði spiluð lengra fram í maímánuð. Þá verði úrslitaleikur bikarkeppninnar á dagskrá í júní.

mbl.is