Arsenal sannfærandi í grannaslagnum

Pierre-Emerick Aubameyang fagnar öðru marki Arsenal á Emirates-vellinum í dag.
Pierre-Emerick Aubameyang fagnar öðru marki Arsenal á Emirates-vellinum í dag. AFP

Arsenal vann 3:1-sigur á Tottenham er Lundúnaliðin mættust á Emirates-leikvanginum í 6. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag. Með sigrinum fór Arsenal upp fyrir nágranna sína á töflunni.

Um tíma virtustu heimamenn í Arsenal hreinlega ætla valta yfir gestina en Emile Smith-Rowe kom þeim yfir á 12. mínútu með marki af stuttu færi eftir sendingu Bukayo Saka. Fyrirliðinn Pierre-Emerick Aubameyang bætti svo við marki eftir frábæra skyndisókn á 27. mínútu. Hann byrjaði þá sóknina sjálfur með því að koma boltanum á Smith-Rowe og Englendingurinn ungi renndi svo knettinum inn í teig á Aubameyang sem skoraði af öryggi.

Staðan var svo 3:0 sjö mínútum síðar. Saka skoraði þá sjálfur eftir að boltinn hrökk af Harry Kane inn í eigin vítateig og Saka gat skorað af stuttu færi. Gestirnir áttu að vísu eftir að klóra í bakkann, Heung-Min Son skoraði á 79. mínútu eftir fyrirgjöf Sergio Reguilón, en nær komust þeir ekki.

Arsenal er því búið að vinna þrjá leiki í röð, eftir að hafa tapað fyrstu þremur, og er nú í 10. sæti með níu stig. Tottenham er sömuleiðis með níu stig en í 11. sæti vegna verri markatölu. Tottenham vann fyrstu þrjá leiki sína en hefur nú tapað þremur í röð.

Arsenal 3:1 Tottenham opna loka
90. mín. Fimm mínútur í uppbótartíma.
mbl.is