Fyrsta markið eftir höfuðkúpubrot

Raúl Jiménez fagnar sigurmarki sínu á St. Mary's vellinum í …
Raúl Jiménez fagnar sigurmarki sínu á St. Mary's vellinum í dag. AFP

Mexí­kóski knatt­spyrnumaður­inn Raúl Jimé­nez reyndist hetja Wolves sem nældi í 1:0-útisigur gegn Southampton í 6. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag. Jiménez var að skora sitt fyrsta mark síðan hann höfuðkúpubrotnaði fyrir um ári síðan.

Sigurmarkið kom á 61. mínútu er José Sá, markvörður úlfanna, lyfti boltanum langt fram völlinn á Jiménez, sem hafði betur í baráttu við varnarmann áður en hann skoraði með hnitmiðuðu skoti í vinstra hornið. Framherjinn fagnaði markinu vel og innilega enda það fyrsta sem hann skorar í nokkurn tíma. Úlfarnir vonast eflaust til þess að markahrókurinn finni nú sitt gamla form en hann hefur skorað 34 mörk í 91 úrvalsdeildarleik fyrir Wolves. Fyrst um sinn, eftir meiðslin hræðilegu í leik gegn Arsenal á síðasta ári, var óttast að hann myndi aldrei aftur spila fótbolta.

Þetta var aðeins annar deildarsigur liðsins á tímabilinu til þessa en úlfarnir eru nú með sex stig í 13. sæti. Southampton bíður hins vegar enn eftir fyrsta sigurleiknum en þetta var þó fyrsta tapið í nokkurn tíma og aðeins í annað sinn sem liðið tapar yfir höfuð. Dýrlingarnir voru búnir að gera fjögur jafntefli í röð fyrir leikinn í dag.

mbl.is