Nú eru þeir með Messi

Pep Guardiola býr lið City undir slaginn við PSG annað …
Pep Guardiola býr lið City undir slaginn við PSG annað kvöld. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að leikirnir gegn París SG í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu síðasta vor segi ekkert um viðureign liðanna í riðlakeppni Meistaradeildarinnar sem fram fer í París annað kvöld.

City vann þá báða leikina, 2:1 í París og 2:0 í Manchester, og komst í úrslitaleikinn en beið þar lægri hlut fyrir Chelsea, 0:1.

„Þessir leikir voru á síðasta tímabili. Þeir voru frábærir og leikirnir voru hnífjafnir. Nú eru þeir með Messi. Þeir eru gríðarsterkir, og þetta er nýr leikur í riðlakeppni. Þetta verður allt öðruvísi. Við sjáum til,“ sagði Guardiola á fréttamannafundi nú í hádeginu en hann þjálfaði Messi hjá Barcelona á sínum tíma.

Messi er að stíga upp úr meiðslum og þokkalegar líkur eru á að hann verði með annað kvöld. „Það sem hann hefur afrekað á sínum ferli er einstakt, og miklu meira en það. Vonandi getur hann spilað á morgun, fótboltans vegna,“ sagði Guardiola.

City byrjaði riðlakeppnina með miklum látum og vann RB Leipzig 6:3 á heimavelli í fyrstu umferðinni á dögunum á meðan PSG gerði aðeins jafntefli, 1:1, við Club Brugge á útivelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert