Nýtur stuðnings í Manchester

Ole Gunnar Solskjær hefur verið talsvert gagnrýndur að undanförnu.
Ole Gunnar Solskjær hefur verið talsvert gagnrýndur að undanförnu. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, nýtur fulls trausts hjá stjórn félagsins. Það er Mirror sem greinir frá þessu.

Spjótin hafa beinst að Solskjær eftir 0:1-tap gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni á Old Trafford í Manchester um helgina.

Þetta var annað tap liðsins á stuttum tíma en United féll úr leik í 3. umferð enska deildabikarsins eftir 0:1-tap gegn West Ham á Old Trafford.

United fékk til sín afar öfluga leikmenn í sumar, leikmenn á borð við Cristiano Ronaldo, Jadon Sancho og Raphäel Varane og því mikil pressa á Solskjær að ná árangri á tímabilinu.

Þá hafa enskir miðlar greint frá því að stjórinn verði að skila bikurum í hús, ætli hann sér að halda starfi sínu hjá félaginu, en hann tók við liði United í desember 2018.

mbl.is