Skaut fast á eigin knattspyrnustjóra

Lucas Moura var afar ósáttur eftir 0:3-tapið gegn Arsenal.
Lucas Moura var afar ósáttur eftir 0:3-tapið gegn Arsenal. AFP

Lucas Moura, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Tottenham, var allt annað en sáttur eftir tap liðsins gegn Arsenal í Norður-Lundúnaslagnum í ensku úrvalsdeildinni á Emirates-vellinum í London í gær.

Leiknum lauk með 3:1-sigri Arsenal en Tottenham sá varla til sólar í fyrri hálfleik og Arsenal leiddi 3:0 í hálfleik.

Þetta var þriðja tap Tottenham í röð í ensku úrvalsdeildinni og þá var þetta þriðji leikurinn í röð þar sem liðið fær á sig þrjú mörk.

„Það er ömurleg tilfinning að tapa svona leik því við vitum allir hversu miklu máli þessir leikir gegn Arsenal skipta fyrir stuðningsmenn okkar,“ sagði Moura í samtali við fjölmiðla.

„Við reyndum aldrei að spila þennan leik. Við náðum aldrei upp góðum spilkafla og við reyndum ekki einu sinni að halda í boltann.

Við erum með mikil gæði í hópnum og við erum lið sem getur byggt upp sóknir með því að halda í boltann. Eina planið var að negla boltanum fram völlinn og vona það besta.

Við reyndum að halda í boltann í seinni hálfleik en þá var það bara orðið of seint,“ bætti Brasilíumaðurinn við.

mbl.is