Liverpool-goðsögn látin

Roger Hunt, þriðji frá vinstri, ásamt liðsfélögum sínum í enska …
Roger Hunt, þriðji frá vinstri, ásamt liðsfélögum sínum í enska landsliðinu eftir að heimsmeistaratitilinn árið 1966 var í höfn. AFP

Roger Hunt, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool og enska landsliðsins, er látinn, 83 ára að aldri.

Hunt lést á heimili sínu í dag eftir langvinna baráttu við veikindi.

Hann er næstmarkahæsti leikmaður í sögu Liverpool með 285 mörk í 492 leikjum og markahæsti leikmaður sögunnar hjá félaginu þegar kemur að mörkum í deildakeppni, þar sem 244 marka hans voru skoruð þar.

Hunt vann ensku efstu deildina með Liverpool í tvígang, næstefstu deild einu sinni og enska bikarinn einu sinni.

Hann hjálpaði enska landsliðinu að verða heimsmeistari á heimavelli árið 1966 þegar hann skoraði þrjú mörk og tók þátt í öllum leikjunum í keppninni. Hunt lék alls 34 landsleiki og skoraði 18 mörk fyrir England.

mbl.is