Sex fyrirliðar hjá Liverpool

James Milner og Andy Robertson eru varafyrirliðar Liverpool.
James Milner og Andy Robertson eru varafyrirliðar Liverpool. AFP

Þrír leikmenn bættust í fyrirliðahóp enska knattspyrnufélagsins Liverpool á dögunum en Jürgen Klopp, stjóri liðsins, tilkynnti þetta á blaðamannafundi í vikunni.

Jordan Henderson er fyrirliði liðsins og þeir James Milner og Virgil van Dijk varafyrirliðar. Gini Wijnaldum var einnig varafyrirliði liðsins en hann gekk til liðs við París SG á frjálsri sölu síðasta sumar.

„Það var ákvörðun leikmanna liðsins að fjölga í fyrirliðahópnum,“ sagði Klopp.

„Á síðasta ári voru margir leikmenn að glíma við meiðsli og á ákveðnum tímapunkti vantaði alla fyrirliðana í leikmannahópinn.

Mér fannst því góð hugmynd að vera með sex fyrirliða sem leikmennirnir samþykktu. Trent Alexander-Arnold, Andy Robertson og Alisson Becker verða einnig varafyrirliðar,“ bætti Klopp við.

mbl.is