United vinnur ekkert með þessa liðsheild

Cristiano Ronaldo hefur byrjað tímabilið með látum.
Cristiano Ronaldo hefur byrjað tímabilið með látum. AFP

Gary Neville, fyrrverandi fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Manchester United, gagnrýndi leikmenn liðsins á dögunum en Neville starfar í dag sem sparkspekingur hjá Sky Sports.

United hefur ekki gengið vel í síðustu leikjum sínum en liðið tapaði 0:1-fyrir Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni um helgina, á Old Trafford, og þá þurfti liðið að sætta sig við 0:1-tap gegn West Ham í 3. umferð enska deildabikarsins á Old Trafford í síðustu viku.

Félagið fjárfesti í mjög sterkum leikmönnum í sumar á borð við Cristiano Ronaldo, Jadon Sancho og Raphäel Varane og er pressa á Ole Gunnar Solskjær, stjóra liðsins, að skila bikurum í hús á tímabilinu.

„Þeir eru ekki að spila nógu vel til þess að verða Englandsmeistarar, þrátt fyrir að Ronaldo sé að skora,“ sagði Neville.

„Þú þarft að spila leikinn sem ein heild, allir leikmenn þurfa að vinna saman, og það er einfaldlega ekki staðan hjá United í dag.

Þetta er vissulega nýtt lið sem þarf tíma til að spila sig saman. Þegar menn spila saman og sem ein liðsheild þá vinnurðu oft leiki án þess að spila neitt sérstaklega vel.

Eins og staðan er í dag mun liðið ekki vinna neina titla með svona liðsheild,“ bætti Neville við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert