Dagný skoraði í sigri gegn City

Dagný Brynjarsdóttir í leik með íslenska landsliðinu gegn Hollandi á …
Dagný Brynjarsdóttir í leik með íslenska landsliðinu gegn Hollandi á dögunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagný Brynjarsdóttir átti frábæran leik á miðju West Ham United og skoraði fyrra mark liðsins í sterkum 2:0 útisigri gegn Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu kvenna í dag.

Dagný kom West Ham yfir skömmu fyrir leikhlé, á 38. mínútu, þegar hún skoraði með skalla eftir sendingu Yui Hasegawa. Þetta er hennar fyrsta mark í ensku úrvalsdeildinni en Dagný kom til liðs við West Ham eftir síðustu áramót og spilaði níu síðustu leikina á síðasta tímabili.

Mark Dagnýjar virtist lengi vel ætla að reynast sigurmarkið en Hasegawa innsiglaði sigur Hamranna á fjórðu mínútu uppbótartíma.

West Ham er eftir sigurinn í 4. sæti deildarinnar með 7 stig eftir fjóra leiki.

Manchester City hefur hins vegar ekki byrjað tímabilið vel og er í 9. sætinu með aðeins 3 stig eftir jafnmarga leiki.

mbl.is