Fjögurra marka jafntefli í stórslagnum á Anfield

Leikmenn Liverpool fagna stórkostlegu marki Mohamed Salah.
Leikmenn Liverpool fagna stórkostlegu marki Mohamed Salah. AFP

Liverpool og Manchester City skildu jöfn, 2:2, í frábærum fótboltaleik í ensku úrvalsdeildinni í dag. Eftir markalausan fyrri hálfleik kom hvert markið á fætur öðru í þeim síðari.

Leikurinn fór rólega af stað en eftir rúmlega stundarfjórðungs leik tóku gestirnir í Man City öll völd á vellinum.

Bestu færin í fyrri hálfleik fengu Jack Grealish og Kevin De Bruyne.

Á 21. mínútu komst Grealish komst einn gegn Alisson í marki Liverpool eftir stórkostlegan undirbúning Bernardo Silva en brasilíski markvörðurinn gerði vel í að verja frá honum.

Á 34. mínútu fékk De Bruyne svo frían skalla í vítateig Liverpool-manna eftir laglega fyrirgjöf Phil Foden en skallinn yfir markið.

Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks gerðu gestirnir sig áfram líklega til að taka forystuna en allt kom þó fyrir ekki og því markalaust í leikhléi.

Eftir að hafa ekki séð til sólar í fyrri hálfeik komu heimamenn í Liverpool öllu sterkari til síðari hálfleiks.

Þeir náðu að halda boltanum betur og fengu loks sitt fyrsta færi á 50. mínútu þegar Diogo Jota tók góðan snúning í D-boganum og þrumaði að marki en Ederson í marki Man City varði vel.

Á 59. mínútu tók Liverpool svo forystuna. Mohamed Salah fór þá afar illa með Joao Cancelo á hægri kantinum, lék með boltann áfram, lagði hann inn fyrir á Sadio Mané sem var mættur í frábært hlaup og kláraði laglega í fjærhornið fram hjá Ederson.

Tíu mínútum síðar jafnaði Man City metin. Gabriel Jesus lék þá með boltann inn á völlinn, fór auðveldlega framhjá Fabinho, lagði boltann til hliðar á Phil Foden sem skoraði með frábæru skoti úr nokkuð þröngu færi í teignum niður í bláhornið fjær.

Sjö mínútum síðar, á 76. mínútu, tók Liverpool forystuna á ný. Salah fékk þá boltann frá Curtis Jones, sneri á Cancelo, fór stórkostlega fram hjá Silva, lék því næst á Aymeric Laporte og skoraði svo með frábæru hægrifótarskoti í stöngina og inn.

Aðeins fimm mínútum síðar, á 81. mínútu, jöfnuðu gestirnir hins vegar metin aftur. Foden fékk boltann á vinstri kantinum, lagði hann út í teiginn, boltinn barst út til De Bruyne sem lét einfaldlega vaða með vinstri fæti rétt fyrir utan teig og skotið fór af Joel Matip, varnarmanni Liverpool, og þaðan í netið.

Staðan orðin 2:2 og reyndust það lokatölur eftir æsispennandi lokamínútur þar sem bæði lið reyndu að knýja fram sigurmark.

Úrslitin þýða að Liverpool fer upp í annað sæti deildarinnar þar sem liðið er með 15 stig og Man City fer upp í þriðja sætið. Liðið er með 14 stig, jafnmörg og Manchester United, Everton og Brighton & Hove Albion, en með betri markatölu.

Liverpool er enn eina liðið sem hefur ekki tapað leik í ensku úrvalsdeildinni hingað til.

Leikmenn Manchester City fagna jöfnunarmarki Kevin De Bruyne.
Leikmenn Manchester City fagna jöfnunarmarki Kevin De Bruyne. AFP
Portúgalarnir Diogo Jota og Bernardo Silva eigast við í leiknum …
Portúgalarnir Diogo Jota og Bernardo Silva eigast við í leiknum í dag. AFP
Liverpool 2:2 Man. City opna loka
90. mín. Að minnsta kosti fjórum mínútum verður bætt við.
mbl.is