Langþráður sigur Tottenham – dramatískt sigurmark Brentford

Son Heung-Min lagði upp bæði mörk Tottenham í dag.
Son Heung-Min lagði upp bæði mörk Tottenham í dag. AFP

Tottenham Hotspur kom sér aftur á beinu brautina í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla með góðum sigri gegn Aston Villa í dag í dag. Leicester City glutraði þá niður tveggja marka forskoti gegn Crystal Palace og Brentford vann frækinn sigur gegn West Ham United

Danski miðjumaðurinnPierre-Emile Højbjerg kom heimamönnum í Tottenham yfir á 27. mínútu. Hann vann þá boltann á vallarhelmingi Villa-manna, kom boltanum á Son Heung-Min, sem lagði hann aftur á Højbjerg. Daninn fékk nægan tíma til þess að athafna sig í D-boganum og skoraði með hnitmiðuðu skoti niður í fjærhornið.

Á 68. mínútu jafnaði Ollie Watkins metin fyrir Villa. Hann tók þá gott hlaup á nærstöngina og fékk hárnákvæma sendingu frá Matt Targett sem hann stýrði fimlega í nærhornið.

Aðeins þremur mínútum síðar náðu Tottenham-menn forystunni á ný.

Son tók þá á rás á vinstri kantinum, fór illa með Kortney Hause og lagði boltann fyrir á Lucas Moura en Targett varð fyrri til í boltann en því miður fyrir hann renndi hann boltanum í eigið net.

Staðan orðin 2:1 og reyndust það lokatölur. Sigurinn var kærkominn fyrir Tottenham  sem hafði fyrir leikinn tapað þremur leikjum í röð í deildinni.

Leicester City virtist sömuleiðis vera að krækja í langþráðan sigur þegar sóknarmennirnir Kelechi Iheanacho og Jamie Vardy komu liðinu í 2:0 í fyrri hálfleik gegn Crystal Palace.

Heimamenn í Palace gáfust þó ekki upp. Michael Olise minnkaði muninn eftir rúmlega klukkutíma leik og Jeffrey Schlupp, fyrrverandi leikmaður Leicester, jafnaði svo metin á 72. mínútu og 2:2 jafntefli niðurstaðan.

Leicester er nú án sigurs í síðustu fjórum deildarleikjum.

Bryan Mbeumo kemur Brentford yfir gegn West Ham í dag.
Bryan Mbeumo kemur Brentford yfir gegn West Ham í dag. AFP

Nýliðar Brentford halda svo áfram að gera liðum deildarinnar skráveifu. Að þessu sinni heimsótti liðið West Ham og náðu gestirnir forystunni á 20. mínútu þegar Bryan Mbeumo skoraði.

Brentford hélt forystunni lengi vel en Jarrod Bowen náði hins vegar að jafna metin fyrir Hamrana á 80. mínútu.

Allt virtist stefna í jafntefli og var leiktíminn að renna út þegar varamaðurinn Yoane Wissa skoraði fyrir Brentford á fjórðu mínútu uppbótartíma og tryggði nýliðunum magnaðan sigur.

mbl.is