Þakklátur fyrir að hálfleikirnir voru tveir

Jürgen Klopp með James Milner eftir að hafa kippt honum …
Jürgen Klopp með James Milner eftir að hafa kippt honum af velli í leiknum í dag. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool kvaðst vera ánægður með jafnteflið gegn Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í dag þegar hann horfði á leikinn í heild sinni.

„Ef við hefðum bara spilað seinni hálfleikinn hefði ég viljað vinna en þegar sá fyrri er líka tekinn með er stigið fínt," sagði Klopp við Sky Sports.

„Þetta var spennuleikur með tvo gjörólíka hálfleika. Guði sé lof að það voru tveir hálfleikir því sá fyrri sýndi algjörlega hvernig við eigum ekki að spila á móti City en sá seinni hvernig við ættum að gera það. Við breyttum engu, sögðum bara strákunum hvað þeir hefðu átt að gera. Svona getur gerst gegn hæfileikaríku liði eins og City. Okkar vandamál í fyrri hálfleik var að við spiluðum ekki fótbolta," sagði Klopp.

Spurður um atvikið þegar City-menn vildu að James Milner fengi sitt seinna gula spjald svaraði Þjóðverjinn: „Þetta gerðist of langt í burtu frá okkur en við tókum Milly af velli vegna gula spjaldsins sem hann var kominn með," sagði Klopp, sem skipti Milner af velli strax eftir atvikið.

„Þetta var lærdómsríkt fyrir okkur í dag, og hvernig við brugðumst frábærlega við. Seinni hálfleikurinn var okkar og við gerðum þeim erfitt fyrir hvað eftir annað. Markið hjá Salah - það eru bara bestu leikmenn heims sem skora svona mörk. Það verður talað um þetta mark lengi," sagði Jürgen Klopp við Sky Sports.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert