Völlurinn: Loksins skoraði Werner

Í Vellinum á Símanum Sport í gær ræddu þau Margrét Lára Viðarsdóttir, Eiður Smári Guðjohnsen og Tómas Þór Þórðarson um Timo Werner, sóknarmann Chelsea.

Werner skoraði sitt fyrsta deildarmark á tímabilinu í 3:1 sigri gegn Southampton á laugardag.

Hann hafði áður skorað mark sem var dæmt af í leiknum og raunar hefur hann skorað ein 16 mörk í treyju Chelsea sem hafa verið dæmd af í öllum keppnum, oftast vegna rangstöðu.

Þá hefur hann átt það til að klúðra fjölda dauðafæra en fari svo að hann byrji að nýta færin sín betur eru það ansi góðar fréttir fyrir Chelsea.

„Ef Werner fer að setja einhver mörk fyrir þetta Chelsea-lið geta þeir farið að brjóta leikina aðeins meira upp.

Ekki bara með föstum leikatriðum heldur einmitt þannig að hann getur ógnað svolítið með hraðanum sínum á bakvið línur andstæðinganna,“ sagði Margrét Lára.

Umræður þeirra um Chelsea og Werner má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert