Ferguson: Átt alltaf að byrja með bestu leikmenn þína

Cristiano Ronaldo og Sir Alex Ferguson á góðri stundu árið …
Cristiano Ronaldo og Sir Alex Ferguson á góðri stundu árið 2009. AFP

Sir Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, segir að stjórar ættu alltaf að byrja með bestu leikmenn sína inn á og vísar þar til þess að Cristiano Ronaldo byrjaði á varamannabekknum í 1:1 jafntefli liðsins gegn Everton um helgina.

Í myndskeiði sem fyrrverandi UFC-bardagakappinn Khabib Nurmagomedov birti á Instagramaðgangi sínum eftir leik heyrist Ferguson segja við hann:

„Maður á alltaf að byrja með bestu leikmennina sína. Þegar Everton sá að Ronaldo var ekki í byrjunarliðinu hvatti það þá til dáða.“

Nurmagomedov minnti Ferguson á að Ronaldo hafi komið inn á sem varamaður í leiknum en Ferguson ítrekaði þá að leikmenn í gæðaflokki Ronaldos ættu alltaf að byrja.

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Man United, varði þó ákvörðun sína í samtali við BBC Sport eftir leikinn, en sparkspekingar Match of the Day, markaþáttar BBC, voru á meðal þeirra sem klóruðu sér í kollinum yfir ákvörðuninni.

„Við tveir höfum betri skilning á þessu en sérfræðingarnir. Þetta snýst um að velja réttu augnablikin til þess að spila honum og ekki spila honum.

Hann er ekki lengur ungur hvolpur en hann er alltaf jafn mikill atvinnumaður og tilbúinn til þess að koma inn á. Hann kom inn á í dag [á laugardag] uppfullur af orku og með gott hugarfar,“ sagði Solskjær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert