Ekki stafkrókur um mannréttindi

Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu.
Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu. AFP

Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa gagnrýnt fyrirhugaða yfirtöku sádiarabísks fjárfestahóps á enska knattspyrnufélaginu Newcastle United.

Sacha Deshmukh, framkvæmdastjóri Amnesty, segir í yfirlýsingu að samtökin hafi hvatt ensku úrvalsdeildina til þess að hafna yfirtökunni.

„Undir stjórn Mohammeds bin Salmans er staða mannréttindan í Sádi-Arabíu skelfileg, þar sem gagnrýnendur yfirvalda, kvenréttindabaráttufólk, sjía-aðgerðasinnar og verndarar mannréttinda eru enn ofsóttir og fangelsaðir, oft í kjölfar augljóslega óréttlátra réttarhalda,“ sagði Deshmukh í yfirlýsingunni.

Hann vék þá máli sínu að Jamal Khashoggi, sem var myrtur í Istanbúl fyrir þremur árum. Bin Salman krónprins samþykkti launmorðið á Khashoggi að mati bandarísku leyniþjónustunnar, CIA.

„Réttarhöldin, sem fóru fram fyrir luktum dyrum, yfir meintum morðingjum Khashoggis voru almennt talin hluti af stærri hvítþvotti yfirvalda og Sádi-Arabía er sökuð um stóran lista af glæpum í Jemen sem brjóta í bága við alþjóðleg mannréttindalög meðan á langri deilu þjóðanna hefur staðið.“

Deshmukh biðlaði til ensku úrvalsdeildarinnar að láta mannréttindi vera hluta af hæfnismati nýrra eigenda félaga í deildinni.

„Í stað þess að leyfa þeim sem tengjast alvarlegum mannréttindabrotum að ganga inn í enskan fótbolta einfaldlega vegna djúpra vasa sinna höfum við hvatt ensku úrvalsdeildinna til þess að breyta hæfnismati sínu vegna eigenda og stjórnenda á þann hátt að mannréttindi séu hluti af því.

Orðið „mannréttindi“ er ekki einu sinni að finna í þessu mati þrátt fyrir að enskur fótbolti sé sagður fylgja stöðlum FIFA. Við höfum sent úrvalsdeildinni tillögu að nýju hæfnismati þar sem mannréttindi eru innifalin og við ítrekum að við hvetjum deildina til þess að fara yfir og bæta staðla sína í þessum efnum,“ sagði hann einnig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert