Unnusta Khashoggis fordæmir yfirtökuna

Hatice Cengiz, unnusta Jamals Khashoggis, við minnisvarða um hann sem …
Hatice Cengiz, unnusta Jamals Khashoggis, við minnisvarða um hann sem var reistur í Washington í Bandaríkjunum. AFP

Unnusta sádiarabíska blaðamannsins Jamals Khashoggis, sem var myrtur í Istanbúl fyrir þremur árum, hefur hvatt ensku úrvalsdeildina til þess að láta ekki undan þrýstingi og koma í veg yfirtöku sádiarabísks fjárfestahóps á enska knattspyrnufélaginu Newcastle United.

Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, er í forsvari fyrir fjárfestingasjóð ríkisins sem mun eignast 80 prósent ráðandi hlut í Newcastle gangi yfirtakan í gegn.

Bandaríska leyniþjónustan CIA hefur komist að þeirri niðurstöðu að bin Salman hafi samþykkt mannrán, byrlun lyfja, pyntingar og launmorð Khashoggis í Istanbúl árið 2018.

Khashoggi hafði gagnrýnt sádiarabísku ríkisstjórnina harðlega og flúði land árið 2017.

Hatice Cengiz, unnusta Khashoggis, sagði í samtali við enska blaðið Telegraph að sér þætti það hræðileg tilhugsun að enska úrvalsdeildin virtist viljug til að leyfa bin Salman að fá sínu framgengt.

„Þegar aðeins nokkrir dagar eru liðnir frá því að slétt þrjú ár eru síðan Jamal var myrtur er skelfilegt að horfa upp á að krónprinsinn nálgist það að fá það sem hann vill; að hvítþvo orðspor sitt og saurga nafna íþrótta,“ sagði hún við Telegraph.

Cengiz heldur áfram í samvinnu við lögfræðingateymi sitt að reyna að sækja bin Salman til saka vegna morðsins. Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, sagði í kosningabaráttu sinni að hann myndi sjá til þess að réttvísinni yrði framfylgt vegna morðs Khashoggis, þar sem bin Salman og Sádi-Arabía væru ábyrg.

„Ég velti því fyrir mér hvað hefur skyndilega breyst? Réttlætinu hefur enn ekki verið framfylgt vegna morðs Jamals. Ég hvet ensku úrvalsdeildina til þess að gefa ekki eftir núna, þetta er tíminn til þess að sýna hugrekki og góð gildi.

Þetta mun sýna morðingjunum að þeir geti ekki þvegið hendur sínar af þeim glæpum sem þeir hafa framið. Deildin verður að leiða með fordæmi fyrir knattspyrnuunnendur og alls fólks með því að segja nei við morði,“ sagði Cengiz einnig.

mbl.is