Sakar Solskjær um lygar

Donny van de Beek hefur fengið fá tækifæri með liði …
Donny van de Beek hefur fengið fá tækifæri með liði Manchester United. AFP

Paul Ince, fyrrverandi leikmaður Manchester United, fór ekki fögrum orðum um Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóra United, í sjónvarpsþættinum Kelly & Wrighty Show á Optus Sport á dögunum.

Ince, sem er 56 ára gamall, lék  yfir 200 leiki fyrir United í öllum keppnum en hann er ósáttur með lítinn spilatíma Hollendingsins Donny van de Beek hjá félaginu.

Van De Beek hefur verið mikið í umræðunni í Manchester-borg, undanfarna mánuði, en hann hefur fengið fá tækifæri með liðinu síðan hann gekk til liðs við United frá Ajax í ágúst 2020 fyrir 35 milljónir punda.

„Það fyrsta sem ég myndi spyrji stjórann að, ef hann ætlaði að kaupa mig frá félagi eins og Ajax, væri hvernig hann ætlaði sér að nota mig og þá hvar,“ sagði Ince í þættinum.

„Stjórinn hefur þá tvo valkosti; að segja satt eða að sleppa því að segja satt. Það eina sem ég sé í þessu er að Solskjær hefur ekki verið hreinskilinn við Van de Beek. Hann fær ekkert að spila og United er með 35 milljón punda leikmann á bekknum.

Það erfitt að gagnrýna liðsvalið þegar liðið vinnur og vinnur en það er fullt af leikmönnum þarna sem fá að spila, viku eftir viku, án þess að vera gera einhverjar rósir á vellinum. Leikmenn eins og Fred og Scott McTominay og meira að segja Paul Pogba stundum.

Ég væri brjálaður ef þessir leikmenn væru alltaf valdir á undan mér. Donny hefur gert allt rétt og hagað sér eins og alvöru atvinnumaður. Solskjær hefur sagt að Van de Beek sé í hans plönum sem er augljóslega haugalygi. Hollendingurinn verður að fara annað í janúar,“ bætti Ince við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert