Skrítið ef hann vinnur ekki Gullboltann

Jorginho hefur verið frábær á árinu.
Jorginho hefur verið frábær á árinu. AFP

Roberto Mancini, þjálfari ítalska karlalandsliðsins í knattspyrnu, vonast til þess að Jorginho, miðjumaður Chelsea og Ítalíu, hreppi Gullboltann eftirsótta, Ballon d'Or, hinn 29. nóvember í París í Frakklandi.

Gullboltann hlýtur sá knattspyrnumaður sem skarað hefur fram úr, ár hvert, en það er France Football sem afhendir verðlaunin.

Lionel Messi er sá leikmaður sem hefur oftast hreppt Gullboltann eða sex sinnum alls en Jorginho átti frábært ár með Chelsea og Ítalíu og varð Evrópumeistari með báðum liðum á árinu.

„Það væri skrítið ef Jorginho myndi ekki vinna Gullboltann í ár,“ sagði Mancini á blaðamannafundi á dögunum.

„Hann á skilið að vinna verðlaunin í ár enda unnið nánast alla sem hægt er að vinna á árinu með félagsliði og landsliðið.

Þetta er auðvitað mín skoðun en hann hefur verið algjörlega frábær,“ bætti landsliðsþjálfarinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert