„Ég er svo ungur ennþá“

Claudio Ranieri, knattspyrnustjóri Watford.
Claudio Ranieri, knattspyrnustjóri Watford. AFP

Claudio Ranieri, nýr knattspyrnustjóri enska félagsins Watford, segir ekkert því til fyrirstöðu að hann haldi áfram að starfa í ensku úrvalsdeildinni langt fram á áttræðisaldur.

Roy Hodgson er elsti stjórinn sem hefur stýrt liði í deildinni, en hann var rétt tæplega 74 ára gamall þegar hann stýrði Crystal Palace í síðasta sinn í maí síðastliðnum.

Ranieri verðu sjötugur í næstu viku og í samtali við BBC Sport var hann spurður hvort hann teldi sig geta haldið áfram að þjálfa í deildinni jafn lengi og Hodgson gerði.

„Af hverju ekki? Ég er svo ungur ennþá, mér líður ekki eins og ég sé þetta gamall. Fótbolti er líf mitt.

Ef mér líður vel, ef ég finn sterkar tilfinningar, ef mér finnst sem ég búi yfir nægilega mikilli orku ennþá til þess að miðla til leikmanna minna, vil ég halda áfram,“ sagði hann.

Ranieri er að taka við sínu fjórða enska úrvalsdeildarliði eftir að hafa áður stýrt Chelsea, Leicester City og Fulham.

Stjórnendur Watford eru mjög gjarnir á að skipta um knattspyrnustjóra og því verður það að teljast líklegt að ef Ranieri hyggst bæta aldursmet Hodgsons verði Ranieri að stýra að minnsta kosti einu öðru liði í deildinni á næstu árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert