Chelsea endurheimti toppsætið

Leikmenn Chelsea fagna í leikslok.
Leikmenn Chelsea fagna í leikslok. AFP

Chelsea sigraði Brentford 1:0 á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Þrátt fyrir að hafa verið ósannfærandi í leiknum unnu Chelsea-menn leikinn og endurheimtu með því toppsæti deildarinnar.

Fyrstu 20 mínútur leiksins voru frekar rólegar en þá fór aðeins að lifna yfir þessu. Það var þó ekki fyrr en á lokamínútu fyrri hálfleiks sem eina mark leiksins kom en þá skoraði Ben Chilwell með frábæru skoti frá vítateigslínu. 

Seinni hálfleikurinn spilaðist svipað og sá fyrri. Fátt var um fína drætti fyrstu 20 mínúturnar en eftir það tóku heimamenn völdin og sóttu án afláts. Chelsea getur þakkað markmanni sínum, Edouard Mendy, fyrir að hafa unnið leikinn en hann átti algjöran stórleik og bjargaði liði sínu trekk í trekk í seinni hálfleik.

Eins og áður sagði fara Chelsea-menn aftur á topp deildarinnar með sigrinum en þeir eru með 19 stig eftir átta umferðir. Brentford eru í sjöunda sæti deildarinnar með 12 stig eftir jafn marga leiki. Í næstu umferð fær Chelsea botnlið Norwich City í heimsókn en Brentford mætir næst neðsta liði deildarinnar, Burnley, á útivelli.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Brentford 0:1 Chelsea opna loka
90. mín. Fjórum mínutum bætt við. Ná heimamenn inn jöfnunarmarki?
mbl.is