Tjá sig ekki um málefni Gylfa Þórs

Mál Gylfa Þórs Sigurðssonar er til rannsóknar hjá lögreglunni í …
Mál Gylfa Þórs Sigurðssonar er til rannsóknar hjá lögreglunni í Manchester. AFP

Enska úrvalsdeildarfélagið Everton hyggst ekki tjá sig um málefni Gylfa Þórs Sigurðssonar, leikmanns liðsins og íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, að svo stöddu.

Þetta kom fram í svari Everton við fyrirspurn mbl.is um stöðu leikmannsins hjá félaginu.

Gylfi, sem er 32 ára gamall, var handtekinn á Bretlandseyjum hinn 16. júlí vegna meints brots gegn ólögráða einstaklingi líkt og mbl.is greindi frá fyrstur miðla.

Hann var látinn laus gegn tryggingu skömmu síðar en breski miðillinn Sky Sports greindi frá því í ágúst að Gylfi yrði laus gegn tryggingu til 16. október.

Mbl.is hefur reynt án afláts að ná í lögregluna í Manchester undanfarna daga en í skriflegu svari hennar við fyrirspurn mbl.is segir að engin ákvörðun hafi verið tekin í máli Gylfa.

Hann verður því áfram laus gegn tryggingu á meðan lögreglan í Manchester rannskar málið og að henni lokinni mun lögreglan taka ákvörðun um hvort ákært verði í málinu eða það látið niður falla.

Gylfi var ekki valinn í leikmannahóp Everton fyrir fyrri hluta tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni en hann er dýrasti leikmaður í sögu félagsins.

Hann hefur verið lykilmaður í íslenska karlalandsliðinu undanfarin ár og á að baki 78 A-landsleiki þar sem hann hefur skorað 25 mörk.

Þá á hann að baki 156 leiki fyrir Everton í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 31 mark og lagt upp önnur 25. Alls á hann að baki 318 leiki í ensku úrvalsdeildinni með Swansea, Tottenham og Everton.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert