Bruce farinn frá Newcastle

Steve Bruce er ekki lengur við stjórnvölinn hjá Newcastle.
Steve Bruce er ekki lengur við stjórnvölinn hjá Newcastle. AFP

Steve Bruce hefur látið af störfum sem knattspyrnustjóri enska félagsins Newcastle United.

Brottförin hefur legið í loftinu eftir að sádi-arabískur fjárfestahópur tók félagið yfir í þarsíðustu viku.

Reiknað var með því að Bruce yrði rekinn eftir afleita byrjun Newcastle í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu en í tilkynningu félagsins segir þó að ákvörðunin hafi verið sameiginleg.

„Mig langar að þakka þjálfaraliði mínu, leikmönnunum og öðru starfsfólki sérstaklega fyrir þrotlausa vinnu sína. Það hafa verið hæðir og lægðir, en þetta fólk hefur gefið allt sitt og þar á meðal undir erfiðum kringumstæðum og má vera stolt af sínu framlagi.

Þetta er félag sem státar sig af ótrúlegum stuðningi og ég vona að nýju eigendurnir geti komið því á þann stað sem við viljum öll að það sé á. Ég óska öllum hér góðs gengis það sem eftir er tímabils og í framtíðinni,” sagði Bruce í tilkynningunni um brottförina á heimasíðu Newcastle.

Graeme Jones, sem hefur verið aðstoðarþjálfari Bruce frá því í byrjun árs, tekur við starfinu til bráðabirgða á meðan leit stendur yfir að næsta knattspyrnustjóra félagsins.

Newcastle er í fallsæti með aðeins þrjú stig úr átta leikjum og hefur ekki enn unnið leik í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

mbl.is