Ronaldo: Var jafn stressaður í seinni frumrauninni

Cristiano Ronaldo, stórstjarna enska knattspyrnufélagsins Manchester United, kveðst hafa verið alveg jafn stressaður þegar hann tók þátt í sínum fyrsta leik með liðinu eftir að hafa komið til þess að nýju, 18 árum eftir að hann gekk fyrst til liðs við félagið.

Ronaldo var 18 ára þegar hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir Man United árið 2003. Hann yfirgaf félagið árið 2009 og gekk svo aftur til liðs við það í september á þessu ári.

Í fyrsta leik sínum fyrir liðið í rúm 12 ár skoraði Ronaldo tvö mörk í 4:1 sigri gegn Newcastle United, en þrátt fyrir að vera hokinn af reynslu og einn allra besti markaskorari knattspyrnumaður var hinn 36 ára gamli sóknarmaður stressaður fyrir síðari frumraun sína fyrir Man United.

„Mér leið svo svipað, ég var svo stressaður. Þegar þú spilar þinn fyrsta leik þegar þú ert 18-19 ára ertu mjög stressaður og mér leið eins satt að segja.

En þetta var gott. Við unnum leikinn og ég skoraði mörk. Viðtökur stuðningsmannanna voru ótrúlegar. Nafn mitt var sungið á vellinum,“ sagði Ronaldo.

Langt viðtal við Ronaldo sem mbl.is færir ykkur í samvinnu við Símann Sport má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

mbl.is