„Minn versti dagur sem stjóri United“

Ole Gunnar Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær. AFP

Ole Gunnar Solskjær leið eðlilega ekki vel eftir 5:0 tap gegn erkifjendunum í Liverpool á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Hann var til viðtals hjá Sky Sports eftir leikinn.

„Það er ekki auðvelt að finna önnur orð en að þetta sé minn versti dagur sem stjóri United.“

„Við vorum ekki nægilega góðir. Sem einstaklingar og sem lið. Það má ekki gefa liði eins og Liverpool svona færi en því miður gerðum við það í dag. Frammistaðan í heild sinni var ekki nægilega góð. Bæði lið fengu færi, þeir nýttu sín en við ekki. Þriðja markið var það sem gerði út um leikinn.“

„Ábyrgðin er mín. Það er ekki flóknara en það. Mitt teymi gerði allt rétt en það er ég sem ákveð hvernig við stillum upp. Í dag vorum við ekki nógu beinskeittir og skildum eftir svæði fyrir aftan okkur. Þegar þú gefur góðum leikmönnum þessi svæði refsa þeir.“

Aðspurður hvort hann óttaðist að missa starfið eftir þetta tap sagði Ole einfaldlega:

„Ég er kominn of langt og við sem lið erum komnir of langt til að gefast upp núna.“

mbl.is