Conte næstur hjá Manchester United?

Antonio Conte er litríkur og skapmikill á hliðarlínunni og tekur …
Antonio Conte er litríkur og skapmikill á hliðarlínunni og tekur jafnan virkan þátt í leiknum. AFP

Ítalinn Antonio Conte er orðaður við starf knattspyrnustjóra Manchester United í bæði enskum og ítölskum fjölmiðlum í dag en hann er á lausu eftir að hafa hætt hjá Inter Mílanó í lok síðasta tímabils.

Guardian er meðal þeirra ensku fjölmiðla sem segja að Conte sé tilbúinn í viðræður við Manchester United, fari svo að Ole Gunnari Solskjær verði sagt upp störfum, en hann þykir afar valtur í sessi eftir 0:5 skellinn gegn Liverpool á Old Trafford í gær.

Conte er þekkt stærð í ensku úrvalsdeildinni en hann stýrði Chelsea í tvö ár með góðum árangri því Lundúnaliðið varð enskur meistari undir hans stjórn árið 2017 og bikarmeistari ári síðar. Honum var hins vegar sagt upp eftir að Chelsea hafnaði í fimmta sæti tímabilið 2017-18 og missti af sæti í Meistaradeild Evrópu.

Undir hans stjórn varð Inter ítalskur meistari á síðasta tímabili og vann titilinn í fyrsta sinn í ellefu ár en Conte hætti eftir sem áður, að því er talið er vegna deilna við stjórn félagsins um kaup á leikmönnum fyrir næsta tímabil.

Conte, sem er 52 ára gamall, lék sjálfur tæpa 300 deildaleiki með Juventus og lék 20 landsleiki fyrir Ítaíu. Hann stýrði ítalska landsliðinu 2014-16 en áður Juventus, Siena, Atalanta, Bari og Arezzo.

mbl.is