Kominn með nóg af Pogba

Paul Pogba átti ekki góða innkomu í gær.
Paul Pogba átti ekki góða innkomu í gær. AFP

Paul Scholes, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, er kominn með nóg af nafna sínum Paul Pogba sem er samningsbundinn enska stórliðinu.

Pogba var á meðal varamanna í stórleik United og Liverpool sem fram fór á Old Trafford í gær en Frakkinn kom inn á sem varamaður í hálfleik í 0:5-tapi United.

Miðjumaðurinn átti ekki góða innkoma en hann tapaði boltanum klaufalega á 49. mínútu með þeim afleiðingum að Liverpool skoraði fimmta mark leiksins. Á 60. mínútu fékk hann svo að líta beint rautt spjald fyrir ljótt brot á Naby Keita.

„Frammistaða Pogba í þessum leik súmmerar upp daginn hjá Manchester United,“ sagði Scholes sem var sérfræðingur ensku úrvalsdeildarinnar um leikinn.

„Hann átti að koma inn á til að hjálpa liðinu, sýna ábyrgð og reyna halda boltanum. Hann gefur mark, fær rautt spjald og skilur liðsfélaga sína eftir með tíu menn inn á vellinum og 0:5-undir.

Maður hlýtur að spyrja sig hvort Poga sé að fara spila fleiri leiki fyrir félagið á meðan Solskjær er stjóri. Það er alltaf eitthvað vesen í kringum hann og svo er hann með félagið í gíslingu vegna samningsmála sinna. Þetta er komið gott,“ bætti Scholes við.

mbl.is