Cash búinn að skipta um ríkisfang

Matty Cash (t.h.) getur nú spilað fyrir pólska landsliðið.
Matty Cash (t.h.) getur nú spilað fyrir pólska landsliðið. AFP

Umsókn Matty Cash, hægri bakvarðar Aston Villa, um pólskt vegabréf hefur verið samþykkt af þarlendum yfirvöldum og er hann því frá og með deginum í dag gjaldgengur í pólska karlalandsliðið í knattspyrnu.

Cash er einn fjölda liðtækra enska hægri bakvarða og sá ekki fram á að brjóta sér leið í enska landsliðið. Móðir hans er pólsk og því gat hann sótt um pólskt ríkisfang.

„Þetta er afar mikilvægur dagur fyrir mig og fjölskyldu mína. Umsókn mín um pólskt ríkisfang hefur verið samþykkt af pólskum yfirvöldum.

Ég vil þakka forsetanum, fjölskyldu minni og öðru fólki sem hefur hjálpað mér í þessu ferli. Það er tími fyrir nýjar áskoranir, ég mun gera mitt besta fyrir þetta land,“ skrifaði Cash á pólsku á twitteraðgangi sínum í dag.

Hjá pólska landsliðinu eru fram undan tveir leikir um miðjan nóvember í undankeppni HM 2022, þar sem Cash verður að öllum líkindum valinn í landsliðshópinn í fyrsta sinn.

mbl.is