Á láni frá Liverpool en má spila gegn liðinu

Sepp van den Berg þegar hann skrifaði undir hjá Liverpool.
Sepp van den Berg þegar hann skrifaði undir hjá Liverpool. Ljósmynd/Liverpool

Hollenski miðvörðurinn Sepp van den Berg, sem leikur með enska B-deildarliðinu Preston North End á láni frá úrvalsdeildarfélaginu Liverpool, má spila með Preston þegar liðið fær Liverpool í heimsókn í enska deildabikarnum annað kvöld.

Venja er að leikmenn sem eru á láni annars staðar megi ekki spila gegn félaginu sem þeir eru samningsbundnir.

Pep Lijnders, aðstoðarþjálfari Liverpool, sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag og sagði tilganginn með því að senda unga leikmenn á við van den Berg á lán annars staðar ekki helga meðalið ef Liverpool myndi banna honum að taka þátt í stórum leikjum líkt og þeim í deildabikarnum annað kvöld.

„Ef þú vilt verða góður kokkur þarftu að verja drjúgum tíma í eldhúsinu. Hver væru skilaboðin ef við sendum leikmenn á láni til þess að spila góða leiki og svo myndum við banna þeim að spila?“ velti Lijnders fyrir sér.

Hinn 19 ára gamli van den Berg fór fyrst á lán til Preston í janúar og framlengdi svo lánsdvölina í sumar. Hefur hann leikið 30 leiki í öllum keppnum og skorað tvö mörk fyrir liðið frá því í janúar.

„Ég hef verið í samskiptum við hann og hann er spenntur fyrir leiknum. Þetta var það sem hann þurfti á að halda, að fara á lán og berjast í B-deildinni. Við getum ekki beðið eftir að sjá hann á undirbúningstímabilinu næsta sumar,“ bætti Lijnders við.

Van den Berg hefur alls leikið fjóra leiki fyrir Liverpool, þrjá í deildabikarnum og einn í ensku bikarkeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert