Salah með háar kröfur

Mohamed Salah skoraði þrennu á Old Trafford um síðustu helgi.
Mohamed Salah skoraði þrennu á Old Trafford um síðustu helgi. AFP

Mohamed Salah, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, vill fá 500.000 pund á viku í laun hjá félaginu eigi hann að skrifa undir nýjan samning á Anfield. Það er Football Insider sem greinir frá þessu.

Núverandi samningur Salah við enska félagið rennur út sumarið 2023 en hann hefur verið í ótrúlegu formi með Liverpool á tímabilinu.

Salah, sem er þrítugur að árum, hefur sjálfur gefið það út að hann vilji ljúka ferlinum hjá Liverpool en það sé ekki undir honum sjálfum komið.

Egyptinn þénar í kringum 200.000 pund á viku í dag en hann hefur skorað fimmtán mörk og lagt upp önnur fimm í tólf leikjum í öllum keppnum á tímabilinu.

Eigendur Liverpool hafa ekki verið þekktir fyrir það að láta leikmenn sem eru komnir yfir þrítugt stjórna ferðinni í samningaviðræðum en það dylst engum að Salah er á meðal bestu knattspyrnumanna heims í dag.

mbl.is