Pogba sakar fjölmiðla um lygar

Paul Pogba átti ekki góða innkomu gegn Liverpool.
Paul Pogba átti ekki góða innkomu gegn Liverpool. AFP

Paul Pogba, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, er allt annað en sáttur með enska fjölmiðla þessa dagana og þá sérstaklega götublaðið The Sun.

Í gær greindi Sun frá því að Pogba og Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United, hefðu ekki talast við síðan franski miðjumaður fékk að líta rauða spjaldið í 0:5-sigri Liverpool gegn United á Old Trafford í Manchester um síðustu helgi.

Pogba byrjaði á bekknum í leiknum en kom inn á í hálfleik og var innkoma hans vægast sagt slæm.

Hann tapaði boltanum klaufalega í upphafi síðari hálfleiks með þeim afleiðingum að Liverpool skoraði fimmta mark leiksins og nokkrum mínútum síðar fékk hann rauða spjaldið fyrir ljótt brot á Naby Keita.

„Stór lygi til þess að skrifa fyrirsagnir,“ skrifaði Pogba á Twitter en við færsluna birti hann mynd af frétt The Sun sem birtist í gær.

mbl.is