Sigur í fyrsta leik Gerrards – tvö sex marka jafntefli

Steven Gerrard fer vel af stað hjá Aston Villa.
Steven Gerrard fer vel af stað hjá Aston Villa. AFP

Steven Gerrard fer vel af stað sem knattspyrnustjóri Aston Villa en liðið vann 2:0-heimasigur á Brighton í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag í fyrsta leik liðsins undir stjórn Liverpool-goðsagnarinnar. Eftir markalausan fyrri hálfleik skoruðu Ollie Watkins og Tyrone Mings báðir í seinni hálfleik og tryggðu Villa sigur. Sigurinn var sá fyrsti hjá Villa eftir fimm töp í röð.

Mörkin létu ekki á sér standa í Newcastle og í Burnley, þar sem tvö 3:3-jafntefli urðu niðurstaðan. Jóhann Berg Guðmundsson lék allan leikinn með Burnley sem gerði 3:3-jafntefli við Crystal Palace á heimavelli.

Christian Benteke kom Palace yfir snemma leiks en Ben Mee og Chris Wood komu Burnley í 2:1. Palace var hinsvegar yfir í hálfleik þar sem Benteke skoraði sitt annað mark og Marc Guéhi bætti við þriðja markinu. Maxwell Cornet jafnaði hinsvegar í 3:3 á 49. mínútu og þar við sat.

Sömu lokatölur urðu í leik Newcastle og Brentford. Staðan í hálfleik var 2:2, en Jamal Lascelles kom Newcastle yfir strax á 10. mínútu. Ivan Toney jafnaði mínútu seinna og Rico Henry kom Brentford yfir á 31. mínútu. Joelinton skoraði hinsvegar síðasta mark fyrri hálfleiks er hann jafnaði fyrir Newcastle. Lascelles kom Brentford yfir með sjálfsmarki á 61. mínútu en Allan Saint-Maximin tryggði Newcastle eitt stig með jöfnunarmarki á 65. mínútu.

Norwich vann sinn annan sigur í röð í fyrsta leik Dean Smith með liðið er það hafði betur gegn Southampton á heimavelli, 2:1. Che Adams kom Southampton yfir á 4. mínútu en Teemu Pukki jafnaði þremur mínútum síðar. Grant Hanley skoraði svo sigurmarkið á 79. mínútu.

Loks vann Wolves 1:0-heimasigur á West Ham. Raúl Jiménez skoraði sigurmarkið á 58. mínútu.

mbl.is