Yfirburðir City gegn Everton algjörir

Raheem Sterling og Bernardo Silva fagna með Rodri eftir að …
Raheem Sterling og Bernardo Silva fagna með Rodri eftir að sá síðastnefndi skoraði glæsilegt mark í dag. AFP

Manchester City vann Everton 3:0 í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Leikurinn var algjör eign City frá upphafi til enda og voru gestirnir aldrei líklegir til þess að fá neitt út úr honum.

Fyrri hálfleikurinn var algjör eign heimamanna frá upphafi til enda þar sem gestirnir fengu varla færi. Eftir tæpan hálftíma átti Cole Palmer frábæra sendingu í gegn á Bernardo Silva sem var einn á móti Jordan Pickford í marki Everton. Pickford kom út og varði vel en boltinn endaði hjá Ilkay Gundogan sem reyndi að skalla boltann í markið, en setti hann í þverslánna. 

Á 33. mínútu keyrði Raheem Sterling svo inn í teiginn og var tekinn niður af Michael Keane. Stuart Atwell dæmdi vítaspyrnu en skoðaði atvikið svo aftur í VAR-skjánum og breytti dómnum. City-menn voru ekki sáttir en á endanum var niðurstaða Atwell hárrétt.

Leikmenn City fagna með Raheem Sterling eftir að hann skoraði …
Leikmenn City fagna með Raheem Sterling eftir að hann skoraði fyrsta mark leiksins. AFP

Það var svo ekki fyrr en á 44. mínútu sem ísinn var brotinn. Joao Cancelo fær þá boltann á miðjum vallarhelmingi Everton með nægan tíma. Hann snýr boltann stórkostlega utan fótar inn fyrir vörnina á Raheem Sterling, sem kláraði færið vel. Sendingin frá Cancelo var sannkallað augnakonfekt. Stuttu seinna var svo flautað til hálfleiks og heimamenn fóru inn til búningsherbergja með eins marks forystu.

Þegar seinni hálfleikur var um tíu mínútna gamall átti Allan lélega hreinsun út úr teig Everton eftir fyrirgjöf. Rodri kom á ferðinni og gjörsamlega hamraði boltanum í vinkilinn af u.þ.b. 25 metra færi, þar sem að Jordan Pickford átti ekki möguleika. Gjörsamlega frábært mark.

Bernardo Silva skoraði þriðja mark City í dag. Hér er …
Bernardo Silva skoraði þriðja mark City í dag. Hér er hann í baráttunni við Fabian Delph í leiknum. AFP

Bernardo Silva gekk svo endanlega frá leiknum þegar fjórar mínútur voru eftir að venjulegum leiktíma. Cole Palmer fékk þá boltann í teignum, reyndi skot sem fór af varnarmanni og datt beint í hlaupaleið Silva, sem kláraði auðveldlega einn gegn Pickford.

Fleiri urðu mörkin ekki og sigur heimamanna staðreynd í leik sem var algjör eign þeirra frá upphafi til enda.



Man. City 3:0 Everton opna loka
90. mín. Allan (Everton) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert