United lætur til skara skríða

Mauricio Pochettino er samningsbundinn París SG til sumarsins 2023.
Mauricio Pochettino er samningsbundinn París SG til sumarsins 2023. AFP

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Manchester United hafa sett sig í samband við argentínska knattspyrnustjórann Mauricio Pochettino. Það er Duncan Castle, blaðamaður hjá Times sem greinir frá þessu.

Castle var einn af þeim fyrstu sem greindi frá því að Ole Gunnar Solskjær, fyrrverandi stjóri liðsins, yrði rekinn frá félaginu í gær.

Pochettino, sem er 49 ára gamall, hefur lengi verið á óskalista forráðamanna United en hann tók við stórliði París SG í Frakklandi í janúar á þessu ári.

Hann þekkir vel til á Englandi eftir að hafa stýrt bæði Southampton og Tottenham en hann er sagður vilja komast aftur til Englands.

Pochettino er samningsbundinn París SG til sumarsins 2023 en United gæti borgað upp samning hans í Frakklandi og þannig fengið hann yfir til Englands á næstu dögum.

mbl.is