Litlar líkur á að Pochettino færi sig um set

Mauricio Pochettino er stjóri París SG.
Mauricio Pochettino er stjóri París SG. AFP

Líkurnar á því að Mauricio Pochettino verði næsti knattspyrnustjóri Manchester United virðast hafa minnkað verulega.

ESPN segir að samkvæmt sínum heimildum hafi beiðni United um að fá að ræða við Pochettino verið hafnað af stjórn París SG. Þar á bæ hafi menn verið tilbúnir til að leyfa honum að  fara ef Zinedine Zidane væri tilbúinn til að taka við franska stórliðinu.

Spænska blaðið AS segir hins vegar að Zidane sé þegar búinn að hafna PSG og sé ekki tilbúinn til að taka við liðinu á miðju keppnistímabili. Það slái fyrirætlanir enska félagsins að miklu leyti út af borðinu, alla vega fyrst um sinn.

Manchester United er sagt tilbúið til að bíða eftir Pochettino til næsta sumars og ráða bráðabirgðastjóra á meðan. Ernesto Valvarde og Lucien Favre hafa verið nefndir til sögunnar sem mögulegir kandídatar í bráðabirgðastöðuna.

mbl.is