Tekur við Manchester United

Ralf Rangnick er að taka við Manchester United.
Ralf Rangnick er að taka við Manchester United. AFP

Þýski knattspyrnustjórinn Ralf Rangnick er að taka við enska úrvalsdeildarfélaginu Manchester United. Það er The Athletic sem greinir frá þessu.

Þýski stjórinn mun stýra liðinu út tímabilið og taka svo að sér ráðgjafahlutverk innan félagsins til næstu tveggja ára.

Rangnick, sem er 63 ára gamall, stýrði síðast liði RB Leipzig í þýsku 1. deildinni, tímabilið 2018-19 við góðan orðstír.

Hann starfar í dag sem yfirmaður íþróttamála hjá Lokamotiv Moskvu og þarf United því að greiða upp samning Ragnicks í Rússlandi.

Rangnick bíður nú eftir því að fá atvinnuleyfi á Englandi og hann mun því ekki stýra United í stórleiknum gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn kemur á Stamford Bridge í London. Michael Carrick verður því við stjórnvölin gegn Chelsea.

Rangnick hefur verið þjálfari frá árinu 1983 en hann hefur stýrt liðum á borð við Stuttgart, Hannover, Schalke, og Hoffenheim á sínum ferli ásamt RB Leipzig.

mbl.is