Því miður er góður þjálfari á leið til United

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, tjáði sig um komu Ralfs Rangnicks til Englands, sem mun taka tímabundið við stjórnartaumunum hjá Manchester United, á blaðamannafundi í dag.

„Því miður er góður þjálfari á leiðinni til Englands, til Manchester United! Þannig er það. Hann byggði upp tvö félög, úr engu í að verða alvöru ógn í Þýskalandi, hjá Hoffenheim og Leipzig.

Fyrsta verkefni hans er að vera þjálfari og þar liggja hæfileikar hans. United mun verða vel skipulagt, áttum okkur á því. Það eru auðvitað ekki góðar fréttir fyrir önnur lið!“ sagði Klopp.

Ralf Rangnick er í miklum metum á meðal þjálfara í …
Ralf Rangnick er í miklum metum á meðal þjálfara í Þýskalandi. CHRISTIAN CHARISIUS

Búist er við því að tilkynnt verði formlega um ráðningu Rangnick sem stjóra United út tímabilið á næstu tveimur sólarhringum. Hann mun svo taka við tveggja ára ráðgjafahlutverki í kjölfar þess að yfirstandandi tímabili lýkur.

„Hann er í miklum metum á meðal þjálfara í Þýskalandi. Við mættum hvorum öðrum þegar ég var mjög ungur þjálfari og hann stýrði Hannover,“ bætti Klopp við.

mbl.is