United staðfestir komu Rangnick

Ralf Rangnick hefur skrifað undir samning við Manchester United.
Ralf Rangnick hefur skrifað undir samning við Manchester United. AFP

Ralf Rangnick hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri Manchester United og mun hann stýra liðinu út þetta keppnistímabil. Þetta tilkynnti félagið á heimasíðu sinni í dag.

Þjálfaraskiptin hafa legið lengi í loftinu en í síðustu viku bárust fréttir af því að Rangnick væri að taka við liðinu af Ole Gunnar Solskjær sem var rekinn um miðjan nóvembermánuð.

Michael Carrick hefur stýrt United í undanförnum tveimur leikjum en hann mun stýra liðinu áfram þangað til Rangnick er kominn með atvinnuleyfi á Englandi.

„Ég er virkilega spenntur að vera kominn til Manchester United og ég ætla mér að gera þetta tímabil að farsælu tímabili fyrir klúbbinn,“ sagði Rangnick.

„Þetta er hópur sem er fullur af bæði reynslu og eldmóði og ég er staðráðinn í að hjálpa þessum leikmönnum að taka næstu skref á sínum ferli.

Þá hlakka ég mikið til þess að vinna hérna í nákominni framtíð,“ bætti Rangnick við en hann mun starfa sem ráðgjafi hjá félaginu til tveggja ára eftir að hann lætur af störfum sem þjálfari liðsins næsta sumar.

mbl.is