Bið á að Rangnick taki formlega við?

Manchester United staðfesti ráðningu Ralf Rangnicks í gær.
Manchester United staðfesti ráðningu Ralf Rangnicks í gær. AFP

Það bendir allt til þess að Michael Carrick verði við stjórnvölin hjá Manchester United þegar liðið tekur á móti Arsenal í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á Old Trafford í Manchester á fimmtudaginn kemur.

United tilkynnti formlega um ráðningu Rangnicks í gær en hann mun stýra liðinu út yfirstandandi keppnistímabil og taka svo við ráðgjafahlutverki innan félagsins til næstu tveggja ára.

Ole Gunnar Solskjær var rekinn frá félaginu um miðjan nóvembermánuð og hefur Carrick stýrt liðinu í síðustu tveimur leikjum; gegn Villarreal á Spáni í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og svo gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í Lundúnum um nýliðna helgi.

Rangnick bíður eftir atvinnuleyfi á Englandi og óttast forráðamenn félagsins að það verði ekki komið í hús á fimmtudaginn.

Þá gæti vel farið svo að Carrick verði einnig við stjórnvölin þegar United tekur á móti Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni á Old Trafford sunnudaginn 5. desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert