Gæti yfirgefið Liverpool í janúar

Joe Gomez og Virgil van Dijk mynduðu afar öflugt miðvarðapar …
Joe Gomez og Virgil van Dijk mynduðu afar öflugt miðvarðapar þegar liðið varð Englandsmeistari tímabilið 2019-20. AFP

Steven Gerrard, knattspyrnustjóri Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni, vill fá Joe Gomez, varnarmann Liverpool í janúar. Það er Birmingham Mail sem greinir frá þessu.

Gomez, sem er 24 ára gamall, hefur aðeins komið við sögu í sjö leikjum Liverpool á tímabilinu en hann er á eftir þeim Joel Matip og Ibrahima Konáte í goggunarröðinni á Anfield.

Miðvörðurinn hefur verið óheppinn með meiðsli undanfarin tímabil en hann missti af stórum hluta síðustu leiktíðar vegna hnémeiðsla.

Gerrard, sem lék með Liverpool í sautján ár, vonast tl þess að fá Gomez á láni þegar janúarglugginn verður opnaður en Gerrard tók við stjórnartaumunum hjá félaginu á dögunum eftir að Dean Smith var rekinn.

Fimm leikmenn berjast um miðvarðastöðurnar hjá Liverpool því ásamt Gomez er Nathaniel Phillips einnig í aðalliðshóp félagsins en hann hefur einnig verið orðaður við brottför frá félaginu í janúar. 

mbl.is