Stýrir United gegn Arsenal

Michael Carrick stýrir United í stórleiknum gegn Arsenal.
Michael Carrick stýrir United í stórleiknum gegn Arsenal. AFP

Michael Carrick mun stýra Manchester United þegar liðið tekur á móti Arsenal í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á Old Trafford í Manchester á fimmtudaginn.

United tilkynnti í gær um ráðningu á Þjóðverjanum Ralf Rangnick en hann tekur við liðinu af Ole Gunnar Solskjær sem var rekinn um miðjan mánuðinn.

Rangick skrifaði undir samning við United sem gildir út tímabilið en hann mun svo taka að sér ráðgjafahlutverk innan félagsins til næstu tveggja ára.

Þýski stjórinn hefur hins vegar ekki fengið atvinnuleyfi á Englandi og það verður því einhver bið á því að hann stýri sínum fyrsta leik sem stjóri United.

Carrick tók við sem bráðabirgðastjóri United þegar Solskjær var rekinn en hann hefur stýrt síðustu tveimur leikjum liðsins; gegn Villaareal í Meistaradeildinni og Chelsea í ensku úrvalsdeildinni um nýliðna helgi.

mbl.is