Ummæli Klopp vekja athygli

Jordan Pickford tæklaði Virgil van Dijk mjög illa í leik …
Jordan Pickford tæklaði Virgil van Dijk mjög illa í leik liðanna á síðustu leiktíð með þeim afleiðingum að van Dijk missti af restinni af tímabilinu. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er ekkert sérstaklega spenntur fyrir leik liðsins gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni gegn Everton á Goodison Park í Liverpool á morgun.

Liverpool hefur spilað mjög vel í undanförnum leikjum sínum og er sem stendur í þriðja sæti deildarinnar með 28 stig, tveimur stigum minna en topplið Chelsea.

Everton hefur hins vegar gengið skelfilega í síðustu leikjum og er með 15 stig í fjórtánda sætinu, sex stigum frá fallsæti.

„Þessir leikir Liverpool og Everton eru allt öðruvísi en venjulegir leikir í deildinni,“ sagði Klopp í samtali við Sky Sports um nýliðna helgi.

„Þetta eru harðir leikir og ákafinn er mikill sem er oft á tíðum of mikið fyrir mig. Ég er ekki á móti því að menn noti líkamann sinn og þannig spilum við líka.

Leikirnir gegn Everton verða hins vegar oft á tíðum of líkamlegir og þetta er langt frá því að vera minn uppáhaldsleikur á tímabilinu,“ sagði þýski stjórinn.

Klopp var spurður út í ummæli sín á blaðamannafundi í dag en neitaði að svara.

„Ég ætla ekki að tjá mig frekar um þetta mál, ég sagði það sem ég ætlaði að segja. Ef ég segi eitthvað þá verður það mistúlkað og skrifað upp á rangan hátt,“ bætti Klopp við.

Klopp á ekki góðar minningar frá leik liðanna á síðustu leiktíð þegar Virgil van Dijk fór af meiddur af velli eftir fólskulegt brot Jordans Pickfords, markvarðar Everton.

mbl.is