Chelsea áfram á toppnum

Leikmenn Chelsea fagna sigurmarkinu.
Leikmenn Chelsea fagna sigurmarkinu. AFP

Chelsea er áfram á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta eftir nauman 2:1-útisigur á Watford í kvöld. Chelsea er með 33 stig, einu stigi meira en Manchester City og tveimur meira en Liverpool. Watford er í 17. sæti með 13 stig.

Watford byrjaði betur en þegar skammt var liðið af leiknum var hann stoppaður í hálftíma vegna veikinda stuðningsmanns Watford í stúkunni, en hann fékk hjartaáfall. Var hann fluttur á nærliggjandi sjúkrahús í stöðugu ástandi.

Chelsea fór betur af stað þegar leikurinn var flautaður á aftur því Mason Mount skoraði á 29. mínútu eftir undirbúning hjá Kai Havertz. Watford jafnaði hinsvegar á 43. mínútu þegar Emmanuel Dennis skoraði eftir sendingu frá Moussa Sissoko.  

Mount var ekki hættur því hann lagði upp annað mark Chelsea á 72. mínútu á Hakim Ziyech. Ziyech hafði komið inn á sem varamaður tólf mínútum fyrr.

Watford var líklegra til að jafna en Chelsea að bæta við undir lokin, en þrátt fyrir mikla pressu að marki Chelsea í uppbótartíma voru það gestirnir sem fögnuðu sigri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert