Gagnrýndi ensku úrvalsdeildina fyrir regnbogaherferð

Mohamed Aboutrika segir samkynhneigð fara gegn mannlegu eðli.
Mohamed Aboutrika segir samkynhneigð fara gegn mannlegu eðli. AFP

Mohamed Aboutrika, fyrrverandi landsliðsmaður Egyptalands í knattspyrnu, hefur hlotið mikla gagnrýni eftir ræðu hans þar sem hann gagnrýnir harðlega átak ensku úrvalsdeildarinnar til stuðnings LGBTQI+ fólki.

Í 13. og 14. umferð deildarinnar bera fyrirliðar allra liða regnbogafyrirliðabönd, sem er hluti af átaki til stuðnings réttindabaráttu LGBTQI+ fólks.

Aboutrika lét gamminn geysa þegar hann var álitsgjafi hjá beIN Sports, katarskri sjónvarpsstöð sem er með sýningarréttinn fyrir ensku úrvalsdeildina í Arabalöndum.

Hann fékk áminningu þar sem hann hafi með ræðu sinni farið út fyrir starfssvið sitt en mun ekki missa starf sitt sem álitsgjafi á sjónvarpsstöðinni.

Samkynhneigð er bönnuð með lögum í flestum Arabalöndum, þar á meðal í Katar, þar sem HM í knattspyrnu karla fer fram á næsta ári, Egyptalandi, Sádi-Arabíu, Afganistan, Íran, Kúveit, Alsír, Marokkó, Palestínu, Óman, Pakistan, Sýrlandi, Túnis og Jemen.

Ræða Aboutrika var löng og markast af miklum fordómum og þröngsýni. Hana má lesa í heild sinni hér:

„Þetta fyrirbæri, hið kynferðislega frávik sem vísar til samkynhneigðar, við þurfum að fræða og ala upp ung börn. Við erum að tala um bestu deild heims, ensku úrvalsdeildina. Þetta fyrirbæri passar ekki inn í trú okkar eða trúarbrögð.

Áður sögðum við að við skyldum aðeins hunsa þetta fyrirbæri. En nei, nú er þetta fyrirbæri orðið viðbjóðslegt og það er meira áberandi. Við gefum fjölda múslimskra leikmanna í ensku úrvalsdeildinni kredit fyrir að taka ekki þátt í því sem snýr að réttindabaráttu LGBT-fólks í þessum tveimur umferðum í deildinni.

Þetta er hlutverk múslimskra leikmanna og múslimskra fræðimanna. Þetta fyrirbæri hefur brotið sér leið inn í samfélag okkar. Þetta fyrirbæri brýtur ekki aðeins gegn eðli Íslams, þetta brýtur gegn mannlegu eðli. Allah segir í Kóraninum að „Við höfum heiðrað börn Adams.“ Með því að taka þátt í samkynhneigð erum við ekki að heiðra mannfólk, við erum að niðurlægja það.

Fólk ætti að taka eftir og fara varlega því íþróttir eru inni á hverju heimili nú til dags. Við höfum öll skyldum að gegna í baráttunni gegn þessu fyrirbæri sem samkynhneigð er. Þetta fyrirbæri, samkynhneigð, samræmist ekki Íslam og fer gegn heilbrigðri skynsemi, okkar trúarbrögðum Íslam og öllum trúarbrögðum. Berjumst gegn þessu og vörum við. Þetta er okkar hlutverk, við þurfum að veita þessu athygli.

Ég vonast eftir því að beIN Sports-stöðin sýni í framtíðinni leikina þar sem þessi réttindabarátta LGBT-fólks er í aðalhlutverki aðeins frá upphafsflauti, til þess að forðast allt sem tengist LGBT. Við getum ekki stjórnað því sem gerist í miðjum leikjum en þetta er allavega tillaga til beIN Sports-stöðvarinnar.

Það er skylda okkar að berjast gegn þessu fyrirbæri, samkynhneigð, því þetta er hættuleg hugmyndafræði og hún er að verða ógeðslegri, og fólk skammast sín ekki fyrir hana lengur. Þau munu segja þér að þetta snýr að mannréttindum. Nei, þetta gerir það ekki, þetta fer í raun og veru gegn mannlegu eðli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert