„Hefðum getað spilað okkur sem fórnarlömb“

Eddie Howe lætur í sér heyra á hliðarlínunni í gærkvöldi.
Eddie Howe lætur í sér heyra á hliðarlínunni í gærkvöldi. AFP

Eddie Howe, knattspyrnustjóri Newcastle United, var ánægður með hvernig lið hans brást við því að missa mann af velli snemma leiks í 1:1-jafnteflinu gegn Norwich City í gærkvöldi í ensku úrvalsdeildinni en kveðst átta sig á því að Newcastle verði að fara að vinna leiki.

Newcastle er á botni deildarinnar og er eina liðið í henni sem hefur ekki enn unnið leik að 14 leikjum loknum. Er liðið með 7 stig eftir að hafa gert sjö jafntefli.

Í leiknum í gær fékk Ciaran Clark beint rautt spjald strax á níundu mínútu þegar hann rændi Teemu Pukki upplögðu marktækifæri.

„Við þurftum að klífa fjall svo snemma í leiknum. Við hefðum getað oltið niður og spilað okkur sem fórnarlömb en við gerðum það ekki. Við mönnuðum okkur upp og brugðumst við aðstæðum. Það er góðs viti fyrir framhaldið,“ sagði Howe eftir leik.

Newcastle komst þrátt fyrir að vera einum færri 1:0 yfir en Pukki jafnaði metin með glæsimarki og 1:1 jafntefli því niðurstaðan.

„Við vildum ólmir ná í þrjú stig en ég verð að halda í það sem ég sá, andann og hvernig leikmenn gáfu meira en þeir töldu að þeir gætu gefið líkamlega. Við munum þurfa á því að halda í baráttunni fram undan.

Ef við sýnum reglulega sama hugarfar og við gerðum í kvöld [í gærkvöldi] með 10 leikmenn gegn 11 þá munum við vinna leiki, það er enginn vafi á því.

Við vitum að við þurfum á sigrum að halda, jafntefli eru ekki nóg. En leikmennirnir gáfu allt sem þeir áttu og ég var stoltur af þeim. Með gæðin sem við búum yfir munum við vinna leiki,“ bætti Howe við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert