Heimsmeistari í þjálfaralið Liverpool

Alisson og Claudio Taffarel hafa unnið saman hjá brasilíska landsliðinu.
Alisson og Claudio Taffarel hafa unnið saman hjá brasilíska landsliðinu. AFP

Enska knattspyrnufélagið Liverpool hefur ráðið brasilísku goðsögnina Claudio Taffarel í þjálfaralið sitt. Taffarel verður einn þriggja markmannsþjálfara Liverpool.

Alisson, aðalmarkvörður Liverpool og landi Taffarel, mælti með honum við Liverpool og ákváðu forráðamenn félagsins að slá til og bæta honum við þjálfarateymi markvarða þess.

Taffarel hefur undanfarin ár verið markmannsþjálfari brasilíska landsliðsins og mun halda áfram að sinna því starfi samhliða starfi sínu hjá Liverpool.

Hann er 55 ára gamall og var aðalmarkvörður brasilíska landsliðsins þegar það vann HM 1994 í Bandaríkjunum. Taffarel var það einnig þegar liðið vann til silfurverðlauna á HM 1998 í Frakklandi.

Hann lék 101 landsleik á ferli sínum með Brasilíu og vann Ameríkubikarinn, Copa America, í tvígang með liðinu.

mbl.is