Minnast ungrar stúlku og tveggja leikmanna

Frá Goodison Park.
Frá Goodison Park. AFP

Enska knattspyrnufélagið Everton hefur tilkynnt að Övu White, 12 ára gamallar stúlku sem var myrt í síðustu viku, og tveggja leikmanna, Cliff Marshall hjá Everton og Ray Kennedy hjá Liverpool, verði minnst þegar liðið mætir nágrönnum sínum í Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í kvöld.

White var stungin af 14 ára gömlum dreng síðastliðinn fimmtudag þegar hún fylgdist með því þegar kveikt var á jólaljósum í miðbæ Liverpool-borgar.

Stuttu áður en leikurinn hefst klukkan 20.15 á Goodison Park í kvöld verður borði til minningar um White opinberaður þar sem stuðningsmenn nágrannanna og erkifjendanna í Everton og Liverpool sameinast í ákalli um að stemma stigu við glæpum tengdum hnífanotkun í Bretlandi.

Þá munu áhorfendur klappa á 12. mínútu leiksins til minningar um White.

Marshall var fyrsti þeldökki leikmaðurinn sem spilaði fyrir Everton árið 1975. Hann lést í síðustu viku, 66 ára að aldri.

Kennedy, sem var einn af lykilmönnum sigursæls liðs Liverpool á 8. og í upphafi 9. áratugar síðustu aldar, lést þá í gær eftir áratugalanga baráttu við Parkinson’s sjúkdóminn. Hann var sjötugur.

Marshall og Kennedy verður minnst með mínútu þögn fyrir leikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert