Neyðarfundur í Liverpool

Það gengur lítið upp hjá Rafa Benítez og lærisveinum hans …
Það gengur lítið upp hjá Rafa Benítez og lærisveinum hans í Everton þessa dagana. AFP

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Everton funduðu í gær um framtíð Rafael Benítez, stjóra liðsins. Það er Liverpool Echo sem greinir frá þessu.

Everton tapaði illa fyrir nágrönnum sínum í Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í gær á Goodison Park í Liverpool en leiknum lauk með 4:1-sigri Liverpool.

Everton sá aldrei til sólar í leiknum og leikmenn liðsins voru yfirspilaðir af spræku liði Liverpool en Everton er með 15 stig í fjórtánda sæti deildarinnar eftir fyrstu fjórtán umferðirnar, fimm stigum frá fallsæti.

Benítez tók við stjórnartaumunum hjá Everton í sumar þegar Carlo Ancelotti lét af störfum til þess að taka við stórliði Real Madrid.

Harhad Moshiri, eigandi Everton, greindi frá því í samtali við fjölmiðla í dag að Benítez yrði ekki rekinn frá félaginu og að hann myndi fá tíma til að byggja upp sitt lið.

Margir lykilmenn liðsins eru að glíma við meiðsli þessa dagana og þá fékk Benítez lítið fjármagn til þess að styrkja leikmannahópinn í sumar.

Gylfi Þór Sigurðsson er leikmaður Everton en hann hefur ekkert komið við sögu á tímabilinu þar sem hann liggur undir grun fyrir brot gegn ólögráða einstaklingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert