Ronaldo tryggði United sigur í stórleiknum

Cristiano Ronaldo fagnar öðru marki sínu með Jadon Sancho.
Cristiano Ronaldo fagnar öðru marki sínu með Jadon Sancho. AFP

Manchester United sigraði Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Old Trafford í kvöld. Mörk United í kvöld voru portúgölsk en Cristiano Ronaldo skoraði tvö mörk fyrir United og Bruno Fernandes eitt.

Gestirnir frá Lundúnum hófu leikinn af miklum krafti og fengu þrjár hornspyrnur á fyrstu tveimur mínútum leiksins. Marcus Rashford bjargaði m.a. nánast á marklínu eftir skalla Ben White. Á 14. mínútu leiksins fór svo af stað stórundarleg atburðarrás en eftir hornspyrnu Arsenal datt boltinn fyrir Emile Smith-Rowe rétt fyrir utan teig. Smith-Rowe átti laust skot sem endaði í netinu en David De Gea, markvörður United, lá óvígur eftir og kom engum vörnum við. Samherji De Gea, Fred, hafði stigið á hann þegar hornspyrnan kom inn á teiginn og því lá spænski markvörðurinn eftir. Martin Atkinson, dómari leiksins, flautaði ekki fyrr en boltinn var kominn í netið og eftir langa VAR-skoðun var markið dæmt gott og gilt. 

Emile Smith-Rowe skorar umdeilt mark fyrir Arsenal í kvöld.
Emile Smith-Rowe skorar umdeilt mark fyrir Arsenal í kvöld. AFP

Heimamenn voru heilt yfir sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum og á 44. mínútu fékk Englendingurinn Jadon Sancho boltann úti á vinstri vængnum. Hann fann Fred sem var í góðu hlaupi inn á teiginn, Fred skar boltann út til vinstri á Bruno Fernandes sem stóð einn rétt fyrir utan markteig og skoraði auðveldlega. Hálfleikstölur á Old Trafford því 1:1. 

Boltinn í netinu. David De Gea liggur óvígur eftir.
Boltinn í netinu. David De Gea liggur óvígur eftir. AFP

Seinni hálfleikur fór gríðarlega fjörlega af stað. Aftur fengu gestirnir hornspyrnu á fyrstu mínútu hálfleiksins en í þetta skiptið átti Gabriel skalla að marki sem David De Gea varði stórkostlega. Á 52. mínútu fékk Marcus Rashford svo boltann hægra megin frá Diogo Dalot. Englendingurinn fékk nægan tíma til að velja réttu sendinguna og fann að lokum Cristiano Ronaldo aleinan í teignum. Ronaldo gerði engin mistök og kláraði vel í fjærhornið. 

Það tók gestina þó ekki nema þrjár mínútur að svara fyrir sig. Norðmaðurinn Martin Ödegaard jafnaði þá leikinn með keimlíku marki og Ronaldo skoraði rétt á undan. Gabriel Martinelli fékk boltann hægra megin, fann Ödegaard á svipuðum stað í teignum og Ronaldo var á, og Ödegaard kláraði í fjærhornið, eins og Ronaldo. 

Bruno Fernandes fagnar jöfnunarmarki sínu í kvöld.
Bruno Fernandes fagnar jöfnunarmarki sínu í kvöld. AFP

Á 67. mínútu braut svo markaskorarinn Martin Ödegaard á Fred inn í teig Arsenal en Martin Atkinson dæmdi ekkert og leikurinn hélt áfram. Eftir smá stund stoppaði hann þó leikinn þar sem hann hafði greinilega fengið skilaboð um að skoða þetta betur í VAR-skjánum. Niðurstaðan vítaspyrna sem Cristiano Ronaldo skoraði af miklu öryggi úr. Fleiri urðu mörkin ekki og heimamenn fóru með gífurlega mikilvægan 3:2 sigur af hólmi.

Martin Ödegaard fagnar marki sínu í kvöld.
Martin Ödegaard fagnar marki sínu í kvöld. AFP

Með sigrinum fer United upp í sjöunda sæti deildarinnar við hlið Úlfanna með 21 stig. Arsenal eru í fimmta sætinu með 23 stig.

Ralf Rangnick verðandi stjóri Manchester United fylgdist með úr stúkunni …
Ralf Rangnick verðandi stjóri Manchester United fylgdist með úr stúkunni í dag. AFP
David Beckham er á vellinum.
David Beckham er á vellinum. AFP
Man. Utd 3:2 Arsenal opna loka
90. mín. Donny van de Beek (Man. Utd) kemur inn á
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert